4.01.2005

Ég fékk uppljómun í gærkvöldi þegar ég var að fara að sofa. Alltaf þegar það gerist þá get ég ekki sofnað fyrr en ég er búin að koma því frá mér sem ég er að hugsa um. Þannig að ég tók upp blað og penna og byrjaði að skrifa. Hér er afraksturinn:

HVAÐ ER GUÐ?

Byrjaðu á að hreinsa huga þinn af þeirri hugmynd að Guð sé persóna. Byrjaðu með autt blað. Leiddu svo hugann að því að við fyrstu sýn virðist maðurinn æðsta afl á jörðinni, því þvílíkri þekkingu og valdi býr engin önnur skepna yfir. En skoðaðu svo aðeins betur. Það er til afl sem er æðra og sterkara en nokkurn tíma maðurinn. Það er náttúruaflið (force of nature). Við fæðumst inn í þennan heim og deyjum frá honum án þess að hafa nokkuð um það að segja. Við getum á einu andartaki misst allt okkar og staðið uppi slypp og snauð, t.d. af völdum náttúruhamfara. Allt eins getum við auðgast á andartaki, ef náttúrunni þóknast svo, olíulindir eða eðalsteinar gætu fallið okkur í skaut ef við bara eigum landareign á réttum stað. Af þessu má sjá að náttúruaflið er mikið sterkara og öflugra en mannskepnan. Við erum aðeins þrælar þessa húsbónda okkar; okkar líf er háð dyntum þess. Það má vel vera að við lifum í allsnægtum, en ólin er þarna til staðar eftir sem áður og húsbóndi okkar þarf ekki nema að kippa aðeins í hana til að sýna vald sitt.

Hugsaðu þér svo ástina. Hvað er ást? Frumeindir og ferómón? Eða andlegur skyldleiki, aðdáun og virðing komin saman? Eða hugsanlega allt þetta og eitthvað meira sem erfitt er að koma fingri á?

Taktu þessi tvö öfl (náttúruaflið og ástina) og settu þau saman og þá ertu kominn með vísi að hugmynd um það hvað Guð er. Bættu svo við óendanleika og elífri visku og þú hefur færst hálfu skrefi nær.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

                                                                         |
                                                                                                                                    Ocean, a Free Software Library of the World's Religious Literature