Jæja...maður er bara beittur þrýstingi hérna...hmmm...
Allavega, ég var að horfa á nýjan þátt á Skjá 1, The Swan. Mikið er þetta sorglegt. Þarna voru tvær stúlkur sem höfðu ekkert sjálfsálit og héldu að þær gætu orðið hamingjusamar af því að fara í lýtaaðgerð. Til að gera langa sögu stutta komst önnur þeirra áfram til að taka þátt í fegurðasamkeppni sem verður í lok þáttaraðarinnar að mér skilst.
SKO!!! Það er mitt álit að ef þú getur ekki verið sátt/ur við sjálfa/n þig eins og þú ert í dag, þá verðuru það ALDREI, sama hversu oft þú ferð í fitusog og strekkingu, þú átt alltaf eftir að finna eitthvað að þér. Það sem skiptir miklu meira máli er innri styrkur, nokkuð sem þessar stúlkur skorti í miklum mæli.
Önnur stúlkan, sú sem komst áfram, átti kærasta sem var frekar leiðinlegur við hana, og faðir hennar var ekki til að ýta undir sjálfstraustið hennar. Ég efast um að þeir eigi eftir að breyta sinni framkomu í hennar garð mjög mikið, þrátt fyrir breytt útlit. Ef þeir geta ekki borið virðingu fyrir henni sem manneskju núna, þá eiga þeir ekki eftir að gera það seinna. Hugsanlega aðeins fyrst í stað, en svo þegar þeir eru búnir að venjast nýja útlitinu þá tekur það gamla við aftur.
Hennar eini möguleiki er að þroska sjálfa sig nógu mikið í gegn um þetta allt saman þannig að hún fái bein í nefið og kjark til að setja niður fótinn og láta ekki bjóða sér svona framkomu...vona að það gerist.
Annað, með svona þætti, mér finnast þeir stórhættulegir. Mig langar ekkert til að ala dóttur mína upp við það að allir VERÐI að líta óaðfinnanlega út, annars getir þeir ekki verið manneskjur sem hægt sé að virða og elska. Það er nógu erfitt að lifa í þessum heimi eins og hann er.